3. Staðreyndir um neyslu

Við skulum nú skoða nokkrar staðreyndir um það hvernig neysla okkar hefur áhrif á heiminn. Neysla snýr bæði að því sem þú kaupir og notar í daglegu lífi og að þeim vörum og efnum sem þú notar í vinnunni. Í þessu verkefni notum við texta, myndbönd og myndir um neyslu.

Handbók kennara:

3. Inngangur_IS.docx

Staðreyndir um neyslu í daglegu lífi

Við byrjum á einhverju sem stendur þér nærri í þínu daglega lífi og starfi. Núna munt þú læra um mismunandi ferla á bak við framleiðslu alls þess sem við neytum í okkar daglega lífi og um þau neikvæðu áhrif sem hún getur haft. Neðarlega á síðunni geturðu séð dæmi um vöru sem við notum nánast öll og hvaða ferli tengjast framleiðslu hennar og notkun.

 
 

 

Lengd: 50 mínútur

Lestur: 20 mínútur

Verkefni: 30 mínútur

Matvæli, raftæki, bílar, fatnaður. Neysla alls fer sívaxandi því mannkynið verður sífellt ríkara og fjölmennara.

Það þarf auðlindir til að framleiða og flytja allt það sem við kaupum. Umhverfisáhrif frá vörum eru mjög misjöfn, en allar vörur bera ábyrgð á því að ganga á auðlindir jarðarinnar og stuðla að loftslagskrísunni og minnkun líffræðilegrar fjölbreytni. Hins vegar er neyslan ekki sú sama alls staðar í heiminum. Hér á Norðurlöndum er neyslan mjög mikil, og ef allir myndu lifa eins og við, þyrftum við um það bil fjórar jarðir til að hafa nóg af auðlindum. Neyslan okkar hefur því mikil áhrif á jörðina. Því er nauðsynlegt að við breytum framleiðslu- og neysluháttum okkar.

Það er ýmislegt sem við getum gert til að draga úr umhverfisáhrifum:

1. Draga úr neyslu: Fyrst og fremst verðum við að draga úr neyslu okkar. Minni neysla mun þýða minna álag á umhverfið. Þessu er meðal annars hægt að ná fram með því að framleiða vandaðri og endingarbetri vörur og með því að nota þær lengur, svo að við þurfum ekki jafnoft að framleiða nýjar vörur.

2. Endurnotkun og endurvinnsla: Önnur nálgun er að skipta úr línulegu hagkerfi, þar sem við framleiðum, neytum og hendum, yfir í hringrásarhagkerfi, þar sem við endurnotum eða endurvinnum auðlindirnar í nýjar vörur í stað þess að henda þeim.

3. Endurnýjanleg orka: Við þurfum að nota minna af jarðefnaeldsneyti (s.s. olíu og kolum) og í staðinn nota endurnýjanlega orku (s.s. vatns-, vind- og sólarorku). Þannig verður orkan sem er notuð við framleiðslu og flutninga á vörum minna skaðleg fyrir loftslagið.

4. Draga úr hættulegum efnum: Þar að auki getum við minnkað útblástur á umhverfisskaðandi efnum. Þessu er m.a. hægt að ná fram með því að nota færri skaðleg efni í framleiðsluferlinu eða skipta þeim út fyrir efni sem eru mildari fyrir náttúruna.

 
 

 

Vandamálin eru því miður að vaxa. Neysla okkar á hráefnum eykst, og það sama gildir um t.d. losun koltvísýrings og tap á náttúru og líffræðilegri fjölbreytni. Við verðum þó að horfa á björtu hliðarnar og halda fast í það sem við getum breytt og þróa það eins hratt og mögulegt er. Þar á meðal eru möguleikar okkar á endurnotkun og endurnýjanlegri orku.

 
 

 

Öll Norðurlöndin hafa sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda svo sem koltvísýrings. Þessi markmið eru að verða sífellt metnaðarfyllri. Gagnrýnendur segja loforðin þó enn ekki duga til að ná fram settum markmiðum. Í hinu stærra samhengi hafa Evrópusambandið, Bandaríkin og Kína einnig sett sér markmið um að draga úr losun koltvísýrings.

Öll Norðurlöndin vinna janframt með hringrásarhagkerfi í misjöfnum mæli. Á þessum tímapunkti er áætlað að hagkerfi Norðurlandanna séu um 6% hringrásarhagkerfi (2023).

Það má einnig sjá breytingar á neysluvenjum í átt að meiri sjálfbærni. Því lengur sem við notum þá hluti sem við eigum nú þegar, því færri nýja hluti þurfum við að framleiða. Dæmi um þetta eru:

1. Skilagjald á umbúðum: Á Norðurlöndunum eru um 90% af flöskum og dósum með skilagjaldi endurunnar. Endurvinnsla á umbúðum með skilagjaldi dregur töluvert úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnkar plastmengun.

2. Rafbílar: Rafbílar eru einnig að stækka markaðshlutdeild sína. Rafbílar glíma við sínar áskoranir, þar á meðal framleiðslu á rafhlöðum, en þeir draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bjóða upp á þann möguleika að endurnota/endurvinna rafhlöður.

3. Minni matarsóun: Mörg fyrirtæki leggja mikið upp úr því að minnka matarsóun. Því minna sem við sóum, því minna þurfum við að framleiða, og því minna er álagið á umhverfið.

Að framleiða vöru

Framleiðsla vöru gerist í mörgum skrefum, sem hvert um sig getur skaðað umhverfið og gengið á auðlindir.

Fyrst þarf að afla hráefna. Það er t.d. gert með námugreftri, skógarhöggi eða annarri hráefnavinnslu. Þetta getur valdið náttúruspjöllum og losað mengandi efni. Hráefnin eru síðan flutt í verksmiðjur þar sem þau er unnin. Framleiðslan krefst orku og kannski vatns og þá falla til ýmis efni og úrgangur sem geta skaðað umhverfið.

Þegar varan er tilbúin þarf að flytja hana og selja. Flutningurinn getur verið langur og getur farið fram með skipum, bílum, lestum eða flugvélum, sem veldur aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda.

Allt þetta framleiðsluferli, frá öflun hráefna til vinnslu, flutnings og sölu, veldur álagi á umhverfið. Gróðurhúsalofttegundir losna, vatn og orka eru notuð, náttúran skaðast og úrgangur verður til. Til að minnka skaðann þarf að endurnota, endurvinna og taka upp umhverfisvænni aðferðir við framleiðslu og flutning.

Dæmi um vöru sem við notum í daglegu lífi

Ferðalagið frá bómullarakri til fatabúðar

Klæðist þú bómullarfötum núna? Kannski stuttermabol? Og hefurðu velt fyrir þér ferðalaginu sem stuttermabolurinn þinn fór í áður en hann endaði á líkama þínum? Ef ekki, þá geturðu lesið um það hér:

Það byrjar allt með bómullarræktun. Eftir uppskeru þarf að flytja bómullina frá akrinum til verksmiðjunnar. Þar þarf fyrst að vinna hana áður en hægt er að spinna garnið, síðan er hægt að vefa efnið og lita það. Hvert skref í þessu ferli krefst mikillar orku, mannauðs og pláss og felur oft í sér notkun skaðlegra efna.

Þegar efnið er tilbúið er stuttermabolurinn saumaður og síðan bætt við prenti og skrauti eftir þörfum. Þegar stuttermabolurinn er tilbúinn, er honum pakkað og hann sendur í næstu fatabúð. Á leiðinni hefur bolurinn oft ferðast yfir langa vegalengd víða um heim.

Allt þetta ferðalag og öll þessi vinnsla hefur einnig áhrif á loftslagið og umhverfið og sóar miklum auðlindum. Það er hins vegar heppilegt að til eru lausnir sem geta dregið úr neikvæðum áhrifum stuttermabolsins á jörðina okkar:

Í stað þess að henda stuttermabolnum þegar hann er dottinn úr tísku er hægt að gefa hann eða selja, svo að önnur manneskja geti notið hans. Það þýðir að við þurfum að framleiða færri nýja stuttermaboli. Það hjálpar til við að endurnota stuttermabolinn að hann sé úr góðu efni, þá er hægt að nota hann sem oftast.

Ef stuttermabolurinn er ónýtur eða of slitinn til að hægt sé að endurnota hann, þá er hann flokkaður til endurvinnslu. Þá geta efnin í honum verið notuð til að framleiða nýjar vörur. Í stað þess að nota auðlindir til að rækta nýja bómull, er gamla bómullin notuð til að framleiða nýja vöru.

Þegar við framleiðum stuttermaboli getum við notað efni sem eru minna skaðleg fyrir umhverfið. Dæmi um slík efni eru lífræn bómull, bambus og endurnotað eða endurunnið textíl.

Framleiðendur geta breytt því hvernig þeir framleiða stuttermaboli til þess að gera framleiðsluna umhverfisvænni. Þeir geta notað hreinari orkugjafa, minnkað vatnsnotkun og dregið úr notkun hættulegra efna. Það er bæði betra fyrir umhverfið og heilsu okkar þegar við klæðumst stuttermabolunum.

Með því að nota efni sem koma ekki langt að og framleiða stuttermabolina á upprunastað, getum við dregið úr flutningstíma og mengun. Þetta hjálpar til við að vernda umhverfið og minnkar kolefnisfótsporið.

Vissir þú að þú getur fengið meiri upplýsingar um hvernig stuttermabolurinn þinn er framleiddur með því að leita að viðurkenndum vottorðum á fatnaðinum, til dæmis GOTS-merkinu, Fair Trade-merkinu, Oeko-tex® STANDARD 100-merkinu, sem og Svansmerkinu og ESB-blóminu.

Ef þú vilt vita meira um ferðalag stuttermabolsins og afleiðingar þess, getur þú horft á myndbandið hér:

Staðreyndir um neyslu í byggingariðnaði

Nú hefur þú lært um neyslu einstaklinga og hvernig hún hefur áhrif á heiminn. Nú munt þú læra um það hvaða áhrif byggingariðnaðurinn hefur á heildarneyslu heimsins og þá möguleika sem við höfum til að takmarka skaðleg áhrif hennar.

Byggingariðnaður spilar lykilhlutverk í samfélagi okkar, þar sem hann skapar þær byggingar, vegi og innviði sem við erum öll háð í okkar daglega lífi. En byggingariðnaður hefur einnig neikvæð áhrif þegar kemur að auðlindanotkun og umhverfisáhrifum.

Byggingarefni eins og steinsteypa, stál, timbur og einangrunarefni þarf að vinna úr náttúrunni og framleiða í verksmiðjum, sem krefst mikillar orku og auðlinda. Flutningur þessara efna til byggingarsvæðisins og byggingarferlið sjálft leiðir líka til losunar skaðlegra efna og koltvísýrings. Sorp sem myndast í byggingariðnaði er jafnframt mikil áskorun, þar sem slíkur iðnaður framleiðir gjarnan mikið magn byggingarúrgangs sem hefur neikvæð umhverfisáhrif.

Byggingariðnaður veldur miklu álagi á jörðina okkar. Því spila þú, samnemendur þínir og framtíðarkollegar afar mikilvægt hlutverk, bæði fyrir samfélagið eins og það er nú og til að hjálpa til við að leysa þau vandamál sem koma upp á leiðinni í átt að sjálfbærari heimi. Það eru því ýmis svið þar sem við getum látið til okkar taka hvað varðar byggingariðnaðinn.

Til að draga úr vandamálum er tengjast byggingariðnaði eru ýmsar lausnir:

1. Viðhald og varanleiki: Ein af árangursríkustu aðferðunum er að byggja fleiri orkunýtnar, auðlindanýtnar og endingarbetri byggingar. Því lengur sem byggingar standa, því færri nýbyggingar þurfum við. Og því minni orku sem byggingar þafnast, því minni orku þurfum við að framleiða.

2. Endurnotkun og endurvinnsla: Auk þess getum við dregið úr framleiðslu nýrra byggingarefna með því að endurnota byggingarefni, og með endurvinnslu byggingarefna getum við minnkað álagið sem tengist framleiðslu annarra efna.

3. Minni flutningar: Með því að minnka flutningsvegalengdir á byggingarefnum og nota í staðinn staðbundnar auðlindir er hægt draga töluvert úr útblæstri koltvísýrings sem hjálpar loftslaginu.

Því miður stendur byggingariðnaðurinn enn frammi fyrir miklum áskorunum. Notkun auðlinda er enn mikil, og losun koltvísýrings frá byggingarframkvæmdum stuðlar að loftslagsbreytingum.

Þó er meðvitund að aukast um nauðsyn þess að byggja sjálfbært. Byggingarreglugerðir í Norðurlöndunum eru að verða sífellt strangari hvað sjálfbærni varðar. Einnig eru til aðgerðir sem stuðla að endurnotkun byggingarefna.

Það byrjar meðal annars með því að þú og þínir bekkjarfélagar fáið þjálfun til að vinna með endurnotkun í byggingariðnaði sem þið getið tekið með ykkur þegar þið farið að vinna á sviði þar sem efirspurnin eftir sjálbærum aðferðum er sífellt að aukast.

Norðurlöndin hafa öll sett sér markmið til að minnka kolefnislosun frá byggingariðnaði. Til dæmis hafa Danmörk, Finnland, Ísland og Svíþjóð ákveðið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við nýbyggingar. Einnig hafa orðið til góðir hvatar til að stuðla að grænum byggingaraðferðum, til að mynda styrktaráætlanir sem veita fjármagni í sjálfbær byggingarverkefni.

Neytendur gegna mikilvægu hlutverk í að stuðla að sjálfbærni í byggingariðnaði. Áhuginn á orkunýtnu og umhverfisvænu húsnæði og byggingum fer vaxandi. Margir neytendur krefjast umhverfisvottana sem staðfesta sjálfbærni bygginga, svo sem hinu norræna Svansmerki. Fjöldi Svansmerktra bygginga tvöfaldaðist á árunum 2020-2022.

Einnig er aukin eftirspurn eftir endurnotuðu efni í heimilisinnréttingar og í byggingaverkefni.

Dæmi um vöru sem við notum í byggingariðnaði

Frá jörðu til múrs - ferð múrsteinsins frá hráefni til fullunnar vöru

Þegar við stígum inn í múrsteinsbyggingu leiðum við sjaldan hugann að því umfangsmikla ferðalagi, sem hver einasti múrsteinn hefur farið í gegnum, áður en hann varð hluti af byggingunni. Ferð sem hefst í leirnámum í jörðu niðri, þar sem náttúran þarf að víkja fyrir jarðýtum, trukkum og fólki. Gríðarlegt magn jarðvegs og orku þarf til að afla þeirra hráefna, sem síðar verða að múrsteinum.

Hráefnin eru síðan flutt til framleiðlusvæðisins þar sem þau eru mótuð og bökuð við hátt hitastig, sem krefjast mikillar orku. Þegar múrsteinarnir eru tilbúnir þarf aftur að flytja þá til byggingarsvæðisins með þungum ökutækjum, stundum yfir langar vegalengdir.

Nú hefur múrsteinninn farið í gegnum fyrstu fjögur stig lífsferilsins:

1) Vinnslu í hráefnanámu

2) Flutningur til framleiðslusvæðis

3) Framleiðslu

4) Flutning til byggingarsvæðis

Hver hluti þessa ferðalags hefur áhrif á umhverfið, loftslagið og auðlindir.

Til að færa okkur í átt að umhverfisvænni múrsteinaframleiðslu eru ýmsar lausnir sem við getum unnið með. Skoðum nokkrar þeirra stuttlega:

Eitt af því besta og augljósasta sem við getum gert til að minnka umhverfisáhrif er að draga úr framleiðslu á múrsteinum. Við gerum það með því að endurnota þá múrsteina sem við höfum þegar framleitt í nýjum byggingum. Múrsteinar eru mjög endingargóðir og hafa langan líftíma ef við pössum vel upp á þá.

Í stað þess að rífa niður gamlar byggingar og múrsteina getum við notað mildari niðurrifsaðferðir. Það eykur möguleika okkar á að endurnota múrsteinana, í stað þess að eyða þeim.

Stundum er þó ekki mögulegt að endurnota múrsteina í nýjar byggingar. Það getur verið vegna hættulegra efna eða múrblöndunnar sem var notuð í þá. Í slíkum tilvikum er hægt að mylja múrsteinana niður og endurvinna þá sem landfyllingu undir vegi eða sem bindiefni fyrir önnur byggingarefni. Þótt endurvinnsla dragi ekki úr framleiðslu okkar á múrsteinum þá geta múrsteinarnir komið í stað annarra efna.

Hægt er að nota önnur byggingarefni sem krefjast færri auðlinda og eru umhverfisvænni. Þetta gætu meðal annars verið samsett efni, viður eða múrsteinar gerðir úr endurunnum efnum.

Framleiðendur múrsteina geta dregið úr orkunotkun í framleiðsluferlinu. Þeir geta einnig notað endurnýjanlega orkugjafa og dregið úr notkun spilliefna. Þetta hjálpar bæði loftslaginu og umhverfinu.

Með því að framleiða múrsteina nær byggingasvæðum getum við minnkað flutningsvegalengdir. Það takmarkar losun koltvísýrings og dregur úr mengun. Það skapar einnig styttri aðfangakeðjur og minnkar umhverfisáhrif mannvirkja.

Sjáðu hér hvernig múrsteinn er framleiddur:

Verkefni um loftslag, umhverfi og auðlindir (30 mín.)

Í þessu verkefni þarftu að spyrja að minnsta kosti tveggja spurninga um loftslag, umhverfi eða auðlindir sem bekkjarfélagi þinn á svo að svara. Annarri spurningunni þarf að vera hægt að svara með því að lesa textann á síðunni sem þú lest núna. Þú ræður um hvað hin spurningin er. Þú þarft ekki að vita svarið sjálf/ur.

Spurningar og svör þarf að skrifa niður.

Þú mátt endilega afrita spurningarnar yfir í ritvinnsluforrit, svo að auðveldara sé að skrifa niður svörin.

1. Settu fram spurningu um loftslag, umhverfi eða auðlindir sem hægt er að svara með því að lesa textann (5 mín.)

2. Settu fram spurningu um loftslag, umhverfi eða auðlindir sem þú vilt fá svar við (5 mín.)

3. Skiptu um spurningar við bekkjarfélaga þinn og svarið spurningum hvors annars (10 mín.)

4. Kynntu spurningar ykkar og svör fyrir bekknum (10 mín.)