Endurnotkun eða endurvinnsla?
Hvernig veit maður hvort byggingarefni sem hafa verið notuð áður séu endurnotuð eða endurunnin?
Grundvallaratriðið er hvort að efnið sé notað til sömu þarfa og í upphafi, eða hvort efnið sé meðhöndlað þannig að það geti nýst til annarra þarfa.
Munurinn á endurnotkun og endurvinnslu
Það er erfitt að draga mörk á milli þess hvenær er verið að endurnota og hvenær um endurvinnslu er að ræða. Nokkur atriði geta hjálpað til við að greina þar á milli.
Skilgreining á endurnotkun og endurvinnslu
Endurnotkun er þegar tiltekið byggingarefni er aftur látið gegna sama eða svipuðu hlutverki og það var upphaflega notað í, t.d. þegar múrsteinn er notaður aftur sem múrsteinn og timbur er notað aftur sem timbur. Byggingarefnið er þá tekið úr einni byggingu og sett í aðra, þar sem það gegnir sama hlutverki.
Endurvinnsla er þegar efni er breytt og það meðhöndlað þannig að það nýtist í eitthvað annað en það sem það var upprunalega notað í. Þetta getur verið múrsteinn sem er malaður og notaður í vegfyllingu, eða timbur sem er bútað niður og notað sem eldiviður. Þetta er einnig kallað „niðurvinnsla“ (e. downcycling). Efnið fær nýtt „líf“ með nýjum eiginleikum sem gera það hæft fyrir önnur hlutverk. Reyndar er sjaldnast hægt að koma endurunnum byggingarefnum aftur í upprunalegt form þeirra.
Þessar skilgreiningar á nýtingu notaðra byggingarefna eru ekki alveg fullnægjandi. Til dæmis eru tilfelli þar sem notuðum byggingarefnum er breytt í önnur efni, áður en þau eru er endurnýtt í framleiðslu á sams konar byggingarefnum og þau voru upphaflega. Er það endurnotkun eða endurvinnsla? Í slíkum tilfellum þarf að skoða nánar hversu mikið efnið hefur verið meðhöndlað.
Önnur leið til að ákvarða hvort verið sé að endurnota eða endurvinna er að skoða ferlin sem eiga sér stað eftir niðurrif byggingar. Þarna er hægt að greina á milli endurnotkunar og endurvinnslu með því að skipta efnum eftir því hvort hægt sé að flytja þau beint frá niðurrifinu til nýrrar byggingar þar sem þau eru notuð óbreytt (endurnotkun), eða hvort efnin séu flutt frá niðurrifsstaðnum til fyrirtækis þar sem þau eru notuð í framleiðslu á nýju efni (endurvinnsla).
Þetta er sýnt á lífsferilsmyndinni, þar sem endurnotkun er sýnd með leiðinni frá niðurrifi til innsetningar, og endurvinnsla er sýnd með leiðinni frá niðurrrifi til framleiðslu og þaðan til innsetningar.
Bæði í endurnotkun og endurvinnslu eru hráefnin varðveitt. Þar með er dregið úr þörfinni fyrir ný hráefni, eins og sýnt er efst í vinstra horni myndarinnar. Kosturinn við endurnotkun umfram endurvinnslu er líka sá, að þá sparar maður orkuna sem þarf til að meðhöndla efnið og breyta því í eitthvað nýtt.